Handbolti

Þórir leyfði leik­manni að fara heim til að sinna fjöl­skyldu­málum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrine Lunde var valin mikilvægasti leikmaður síðustu Ólympíuleika þegar norsku stelpurnar unnu gull.
Katrine Lunde var valin mikilvægasti leikmaður síðustu Ólympíuleika þegar norsku stelpurnar unnu gull. Getty/Alex Davidson

Reynsluboltinn Katrine Lunde er farinn aftur heim til Noregs af EM í handbolta. Hún fékk sérstakt leyfi hjá Þóri Hergeirssyni, þjálfara norska kvennalandsliðsins.

Lunde þarf að sinna ónefndum fjölskyldumálum og missir því af næstu tveimur leikjum liðsins.

Hún flýgur heim til Noregs frá Innsbruck í Austurríki þar sem norska liðið spilar leiki sína í riðlinum alveg eins og Ísland.

Lunde spilaði fyrsta leik norska liðsins sem vann þá 33-26 sigur á Slóveníu. Hún missir aftur á móti af leikjum við Austurríki og Slóvakíu.

Markvörðurinn kemur síðan aftur til móts við norska liðið í milliriðlinum.

Þórir vissi af þessu þegar hann valdi hópinn sinn og þetta var því samkomulag á milli hans og markvarðarins. Það er alveg skiljanlegt að Lunde fái smá slaka því hún hefur heldur betur skilað til norska kvennalandsliðsins síðustu ár.

Lunde, er sigursælasta handboltakona allra tíma og hefur spilað með norska landsliðinu frá árinu 2022. Hún er 44 ára gömul og hefur unnið ellefu gull á stórmótum með norska landsliðinu.

Síðasti leikur hennar var leikur númer 366 fyrir norska landsliðið.

Hún er líka enn í dag einn besti markvörður heims enda valin mikilvægasti leikmaðurinn þegar norska liðið vann gull á Ólympíuleikunum í París í sumar. Lunde hefur þrisvar verið valin besti markvörður EM og er nú að reyna að verða Evrópumeistari í sjöunda skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×