Innlent

Auð­velt val þótt hann geti ekki kosið sjálfan sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Grímur Grímsson á kjörstað í morgun.
Grímur Grímsson á kjörstað í morgun. Vísir/Sigurjón

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn og frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir valið hafa verið auðvelt á kjörstað í morgun, þó hann sé í þeirri skrítnu stöðu að geta ekki kosið sjálfan sig.

„Ég er í framboði í Reykjavík norður en bý í Reykjavík suður en það var auðvelt fyrir mig að kjósa Viðreisn í Reykjavík suður með Þorbjörgu Sigríði Gunnarsdóttur í efsta sæti,“ sagði Grímur.

Grímur er í baráttusæti í sínu kjördæmi og segir daginn leggjast vel í sig.

„Nú fer maður að hringja í nokkra valinkunna kjósendur og reyna að ýta þeim af stað, ef á þarf að halda.“

Grímur mun verja deginum á kosningaskrifstofunni og í kvöld fari hann á kosningahátíð.

Kosningabaráttan er nokkuð frábrugðin störfum hans hjá lögreglunni.

„Ég hef stundum sagt það að maður stígur út fyrir sinn þægindaramma með þessu en það er bara búið að vera mjög gaman. Gaman að kynnast fólki og tala við kjósendur, það er búið að vera mjög gaman,“ sagði Grímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×