Viðskipti innlent

Upplýsa á um eigendur bankanna

[email protected] skrifar
Frumvarp Steingrímur J. Sigfússon segir það mikilvægt að ráðandi eignarhlutur sé ekki falinn á bak við skráningu á marga aðila sem séu ekki flokkaðir sem tengdir aðilar. 
fréttablaðið/anton
Frumvarp Steingrímur J. Sigfússon segir það mikilvægt að ráðandi eignarhlutur sé ekki falinn á bak við skráningu á marga aðila sem séu ekki flokkaðir sem tengdir aðilar. fréttablaðið/anton
Upplýsa verður um alla þá sem eiga meira en eitt prósent í íslensku fjármálafyrirtæki í ársreikningi. Ekki verður hægt að fela sig á bak við vörsluaðila heldur verður að upplýsa um hverjir endanlegir eigendur (e. beneficiary owners) eru. Þetta er á meðal þeirra breytinga sem koma fram í frumvarpi um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra fjármálamarkaða og almennra viðskiptamála, segir frumvarpið vera í lokafrágangi og að það verði lagt fram í náinni framtíð.

Fréttablaðið greindi frá því á miðvikudag að Fjármálaeftirlitið (FME) hefði upplýsingar um hverjir væru virkir eigendur Straums fjárfestingabanka en teldi sig ekki geta upplýst um þá á grundvelli þagnarskyldu. Sú þagnarskylda verður úr sögunni ef frumvarpið verður að lögum.

Að sögn Steingríms er mikilvægt að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um hverjir séu eigendur fjármálafyrirtækja. „Sérstaklega á ekki að vera neinn vafi á því þegar aðilar eru komnir með, eða eru við það að eignast, ráðandi hlut í fjármálafyrirtækjum. Það vill svo til að við erum að fara yfir lög um fjármálafyrirtæki og erum að leggja lokahönd á frumvarp um breytingar á þeim. Ég geri ráð fyrir því að á meðal þeirra breytinga sem við munum leggja þar til verði að krafa verði gerð um að í skýringum með ársreikningum fjármálafyrirtækja sé alltaf upplýst um alla þá sem eiga meira en eitt prósent í fyrirtækinu."

Steingrímur segir að hann vilji að endanlegur eigandi (e. beneficiary owner) sé tilgreindur í ársreikningum fjármálafyrirtækja, svo hægt sé að rekja endanleg tengsl milli eigendanna. „Þetta snýst líka um að ráðandi eignarhlutur sé ekki falinn á bak við skráningu á marga aðila sem eru ekki flokkaðir sem tengdir aðilar. Við munum reyna að taka á þessu vegna þess að við teljum þetta vera mjög mikilvægt. Það er líka mjög mikilvægt fyrir fjármálafyrirtækin sjálf að það ríki ekki óvissa um eignarhald þeirra sem geri þau tortryggileg."

Eftir að Straumur gekk í gegnum nauðasamninga árið 2010 hefur eigandi bankans verið eignaumsýslufélagið ALMC. Deutsche Bank AF í Amsterdam heldur síðan á 99 prósentum hlutdeildarskírteina í ALMC fyrir hönd hinna eiginlegu hluthafa félagsins. Hvorki FME né Straumur telja sig mega upplýsa um hverjir þeir eru. Bankinn fékk fjárfestingabankaleyfi í fyrrahaust og hefur verið afar virkur þátttakandi í íslensku fjármálalífi alla tíð síðan og meðal annars haft umsjón með hlutafjárútboðum og skuldabréfaútgáfum.

Fréttablaðið upplýsti nýverið um að á meðal eigenda Straums væri bandaríska sjóðstýringarfyrirtækið Davidson Kempner Capital Management LLC. Sjóðir á vegum þess eru líka á meðal stærstu kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×