Enski boltinn

„Við munum þurfa að þjást í langan tíma“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, gat ekki leynt vonbrigðum sínum á hliðarlínunni.
Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, gat ekki leynt vonbrigðum sínum á hliðarlínunni. Getty/Richard Pelham

Ruben Amorim, stjóri Man. Utd, var vissulega raunsær á framhaldið í viðtali eftir 1-1 jafntefli Manchester United á móti Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

United fékk draumabyrjun, í fyrsta leik liðsins undir stjórn Amorim, með marki eftir aðeins 81 sekúndu en dagurinn endaði með ósannfærandi jafntefli á móti einu af neðstu liðum deildarinnar.

Amorim hafði ekki langan tíma til að vinna með leikmönnum sínum en ákvað engu að síður að skipta yfir í 3-4-2-1 leikkerfið sitt. Hann segist ætla að halda í sín gildi á nýjum stað þrátt fyrir einhverja erfiðleika í byrjun.

„Ég veit að þetta er pirrandi fyrir stuðningsmennina en við erum að breyta svo miklu á þessum tímapunkti og við förum í gegnum fullt af leikjum á sama tíma,“ sagði Ruben Amorim.

„Við munum þurfa að þjást í langan tíma og við munum reyna að vinna leiki en þetta mun taka tíma,“ sagði Amorim.

„Við verðum að vinna leiki en við hefðum tapað þessum leik ef ekki væri fyrir Onana í markinu. Við verðum að átta okkur á því að þessir strákar fengu bara tvo daga af æfingum til að takast á við svona miklar breytingar,“ sagði Amorim.

„Það er mjög erfitt fyrir leikmennina að ráða við þetta allt saman. Ég tel að ég sé hingað kominn á miðju tímabili til að vinna okkur út úr þeim hlutum sem liðið var að gera áður,“ sagði Amorim.

„Á næsta ári á sama tíma þá verðum við að glíma við sömu vandamál ef við byrjum ekki að laga þetta núna. Við tökum áhættu með þessu og við þjáumst aðeins en við verðum betri á næsta ári. Þetta snýst um að taka þessa áhættu,“ sagði Amorim.

„Leikmennirnir eru að hugsa of mikið af því að við erum að breyta svo miklu á svo stuttum tíma. Það sem ég sá í dag var að leikmennirnir mínir voru að reyna. Þeir eru virkilega að reyna. Mér fannst þeir vera að reyna að gera það sem ég bað þá um,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×