Innlent

Sagði sínu fólki að tala ekki illa um aðra flokka

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þorgerður Katrín var í stuði á Hótel Borg.
Þorgerður Katrín var í stuði á Hótel Borg.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar var í banastuði þegar Margrét Helga Erlingsdóttir fréttakona náði af henni tali á kosningavöku Viðreisnar á Hótel Borg í kvöld. Hún sagði Viðreisn klára í ríkisstjórn og kom fram að hún hefði skipað sínu fólki að tala ekki um aðra flokka á lokametrum kosningabaráttunnar.

„Mér líður mjög vel og ég lagðist mjög sátt á koddann í gærkvöldi, þetta er búið að vera stórkostleg kosningabarátta, ákváðum að vera jákvæð og uppbyggileg,“ segir Þorgerður. Hún segir sín síðustu skilaboð til hennar fólks hafa verið að tala ekki illa um aðra flokka.

„Við lögðum mjög skýra línu um að við viljum ekki tala illa um aðra flokka, fara í þennan hræðsluáróður, í þetta nagg og nal. Á endanum snýst þetta um framtíðarsýn. Við eigum nefnilega eftir að þurfa að vinna saman eftir kosningar. Það er hægt að fara aðrar leiðir og við í Viðreisn vildum sýna fram á það.“

Þorgerður segir mikilvægt að átta sig á því að flokkurinn hafi verið með 8,3 prósent í síðustu kosningum. Allt umfram það verði sigur. Hún segist hafa dansað vel í baráttunni, Viðreisn sé tilbúin í samhenta ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×