Erlent

Ríkis­stjórnin og Barnier í hættu vegna fjár­laga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Segja má að líf ríkisstjórnar Barnier hangi á bláþræði ef fjárlagafrumvarpinu verður ekki breytt.
Segja má að líf ríkisstjórnar Barnier hangi á bláþræði ef fjárlagafrumvarpinu verður ekki breytt. Getty/Remon Haazen

Töluverðar líkur eru nú taldar á því að vantrauststillaga verði lögð fram gegn Michel Barnier, forsætisráðherra Frakklands, á miðvikudag vegna andstöðu við fjárlagafrumvarp minnihlutastjórnar hans.

Mikil andstaða er á þinginu gegn ákveðnum þáttum frumvarpsins, ekki síst fjármögnun velferðarmála. Þar stendur meðal annars til að lækka framlög atvinnurekenda og draga úr greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði.

Meðal þeirra sem hafa mótmælt fjárlagafrumvarpinu eru þingmenn Þjóðfylkingarinnar og  þingflokksformaðurinn Marine Le Pen hefur hótað því að grípa til aðgerða ef því verður ekki breytt.

Fjármálaráðherrann Laurent Saint-Martin sagði í gær að engar frekari breytingar væru áætlaðar. Le Pen sagði í kjölfarið að yfirlýsingar Saint-Martin hefðu ekki farið framhjá þingmönnum Þjóðfylkingarinnar.

Hún krafðist þess í viðtali við La Tribune að Barnier samþykkti að ganga til viðræðna um mögulegar breytingar. „Allt sem herra Barnier þarf að gera er að samþykkja samningaviðræður,“ sagði hún.

Ef Barnier finnur ekki meirihluta fyrir frumvarpinu á þinginu er gert ráð fyrir að hann muni grípa til þess sem Frakkar kalla „49.3“, sem er tilvísun í undanþáguákvæði í stjórnarskránni.

Það myndi hins vegar leiða til atkvæðagreiðslu um vantraust gegn Barnier, sem myndi aðeins standast ef þingmenn Þjóðfylkingarinnar sitja hjá.

Þjóðfylkingin er stærsti flokkurinn á þingi með 140 þingsæti af 577.

Ríkisstjórnin hefur varað við því að vantraust gegn Barnier gæti leitt til hækkaðrar ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×