Upp­gjörið: Kefla­vík - Aþena 74-59 | Meistararnir stungu af í seinni

Siggeir Ævarsson og Haraldur Örn Haraldsson skrifa
Keflvíkingar unnu öruggan sigur í kvöld eftir jafnan fyrri hálfleik.
Keflvíkingar unnu öruggan sigur í kvöld eftir jafnan fyrri hálfleik. Vísir/Pawel

Íslandsmeistarar Keflavíkur tóku á móti nýliðum Aþenu í kvöld og fóru að lokum með sigur af hólmi í ansi kaflaskiptum leik, 74-59.

Nýliðarnir virkuðu óhræddir í byrjun leiks og tóku forskotið í byrjun meðan Keflvíkingar virtust jafnvel örlítið hissa á því orkustigi sem Aþena kom með inn í leikinn. Þær náðu vopnum sínum þó fljótt og leiddu eftir fyrsta leikhluta 19-17.

Keflvíkingar virtust vera að ná góðum tökum á leiknum rétt fyrir hálfleik þegar Thelma Dís kom þeim tíu stigum yfir með þristi 37-27. Þá tók Brynjar Karl leikhlé og fékk fullkomið svar frá sínu liði sem lokaði leikhlutanum með 12-2 áhlaupi og jafn á öllum tölum í hálfleik, 39-39.

Sjálfstraustið virtist þó hverfa eins og dögg fyrir sólu hjá leikmönnum Aþenu í þriðja leikhluta þar sem liðinu tókst aðeins að setja tíu stig á töfluna. Jasmine Dickey fór mikinn í sóknarleik Keflavíkur og var komin með 27 stig eftir þrjá leikhluta og staðan 57-49, Keflavík í vil.

Aþena lagði þó ekki árar í bát og náði að minnka muninn í tvö stig, 57-55 en þar með hrundi leikur liðsins endanlega. Liðið skoraði aðeins fjögur stig til viðbótar meðan Keflavík skoraði 17, lokatölur í Keflavík 74-59.

Atvik leiksins

Í stöðunni 57-55 fékk Lynn Peters gullið tækifæri til að jafna leikinn og reka þannig endahnútinn á frábært áhlaup Aþenu. En opið sniðskot hennar endaði undir hringnum og í kjölfarið fjaraði algerlega undan leik Aþenu.

Stjörnur og skúrkar

Jasmine Dickey bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn á vellinum í kvöld en hún skoraði 29 stig, reif niður tólf fráköst og bætti við fjórum stoðsendingum. Hún spilaði lokasprettinn á fjórum villum í þokkabót.

Þá var Thelma Dís Ágústsdóttir einnig drjúg fyrir heimakonur og skilaði 18 stigum í hús.

Hjá gestunum var Ajulu Obur Thatha stigahæst með tólf stig, en hún skoraði aðeins eitt stig í seinni hálfleik. Þá bætti hún við 15 fráköstum. Barbara Ola Zienieweska og Lynn Peters komu næstar, báðar með ellefu stig og Barbara lét tólf fráköst fylgja.

Skúrkur kvöldsins hlýtur að vera samleikur Aþenu en liðið gaf heilar tvær stoðsendingar á 40 mínútum.

Dómararnir

Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Hjörleifur Ragnarsson dæmdu leikinn í kvöld. Þeir dæmdu svo lítið í fyrri hálfleik að ég tók varla eftir að þeir væru í húsinu. Er það ekki alltaf best þannig?

Stemming og umgjörð

Það var frekar lágstemmdur andi í stúkunni í Keflavík í kvöld. Fáir áhorfendur mættir og lítið að frétta, eflaust margir uppteknir við að horfa á íslenska kvennalandsliðið í handbolta þetta kvöldið. Þeir hljóta að mæta næst og keyra upp stemminguna.

Viðtöl

Friðrik Ingi: „Maður mætir bara öllum liðum og ber virðingu fyrir öllum þessum liðum“

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari KeflavíkurVísir/Pawel Cieslikiewicz

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigurinn og þá sérstaklega varnarleikinn.

„Þetta var svona ákveðinn barningur en ég var ánægður með varnarleikinn á löngum köflum. Mér fannst samskipti og færslur milli leikmanna betri og markvissari heldur en oft áður. Við þurftum á því að halda, ég held það hafi verið mikilvægt fyrir okkur að ná því.“

„Sóknarleikurinn okkar var á köflum stirður, við eiginlega stjórnuðum leiknum í gegnum varnarleikinn sem er bara mjög jákvætt. Ég veit að við getum gert betur sóknarlega og við erum að vinna í því, en miðað við þessa deild, hvað þetta er jöfn og hörð deild. Þá er maður fyrst og fremst bara ánægður með að ná í sigurinn. Svo veit maður svo sem að maður er með nokkra hluti sem maður er að vinna í og reyna að gera betur, þannig við höldum því bara áfram.“

Sara Rún Hinriksdóttir spilaði 17 mínútur í kvöld en fyrir leik talaði Friðrik um að hún myndi sennilega spila nokkrar mínútur. Spilaði Sara meira en hún átti að gera?

„Já já, kannski en við fylgdumst bara vel með henni. Það var bara ágætt að fá smá „test“ á stöðuna. Hún er búin að vera að æfa með okkur á nokkrum æfingum og það hefur gengið bara ágætlega, hún er auðvitað ekki í sínu besta leikformi, en það kemur bara hægt og rólega. Vonandi bara heldur löppin og það kemur ekkert bakslag og að hún nái að vaxa hægt og rólega inn í þetta hjá okkur. Það var bara gaman að sjá hana á gólfinu.“

Jasmine Dickey var komin með fjórar villur í lokin og Friðrik viðurkenndi að það hefði sett smá strik í reikninginn hjá hans konum.

„Maður auðvitað bara bregst við og við tökum hana útaf síðustu tvær mínúturnar í þriðja leikhluta bara til þess að ná fókus, svo var hún aðeins þreytt svo hún fengi ekki fimmtu villuna á einhverju klaufalegu. Síðan minnkar Aþena aðeins muninn og ég þurfti að fá meiri hæð inn. Þannig við bara settum hana inn og tókum þá djörfu áhættu.“ 

„Svo leystum við það líka, við fórum í aðeins öðruvísi útfærslu á maður á mann vörninni. Það gerði henni aðeins auðveldara fyrir að vera ekki í einhverju klafsi og fá á sig einhverjar klaufavillur. Þetta spilaðist ágætlega og við gerðum ágætlega með þessa stöðu.

Friðrik vildi ekki taka neitt frá nýliðunum og sagðist í raun ekkert hugsa um að hann hefði spilað gegn nýliðum í kvöld.

„Ég veit svo sem ekki hverjir eru nýliðar og hverjir eru ekki. Aþena er bara gott lið að mínu mati, með marga góða leikmenn. Þannig eru einnig fleiri lið í þessari deild, þannig maður mætir bara öllum liðum og ber virðingu fyrir öllum þessum liðum.“

„Það eru einfaldlega bara fullt af góðum leikmönnum og leikmönnum sem jafnvel eru hjá nýliðum eins og sagt er þá eru þetta leikmenn sem eru með fullt af reynslu í úrvalsdeild og hafa spilað í mörg ár. En ég er bara ánægður með að vinna, það er það sem þetta snýst um að ná punktum á töfluna, og í jafnri deild þá er það, það sem skiptir máli.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira