Körfubolti

Stór­kost­legt svar Stólanna gegn toppliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Haukar og Njarðvík þurftu bæði að sætta sig við tap í kvöld.
Haukar og Njarðvík þurftu bæði að sætta sig við tap í kvöld. vísir/Diego

Nýliðar Tindastóls unnu magnaðan sigur á toppliði Hauka á Sauðárkróki í kvöld, 90-86, í Bónus-deild kvenna í körfubolta. Á sama tíma skelltu Þórsarar liði Njarðvíkur á Akureyri, 106-85.

Tindastóll og Þór eru því með í toppbaráttunni, með 10 stig í 4.-5. sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Hauka og tveimur á eftir Njarðvík og Keflavík.

Keflavík vann Aþenu 74-59 í leik sem þó var jafn eftir fyrri hálfleik. Hægt er að lesa nánar um hann í greininni hér að neðan.

Haukar, sem voru án hinnar bandarísku Dimaond Battles, voru ellefu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann á Sauðárkróki í kvöld, 69-58. Heimakonur minnkuðu hins vegar fljótt þann mun og úr urðu æsispennandi lokamínútur.

Tindastóll komst svo yfir þegar að þrjár og hálf mínúta voru eftir, þegar Brynja Líf Júlíusdóttir skoraði þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 81-80. Haukar náðu aldrei að endurheimta forystuna eftir það og urðu að sætta sig við tap.

Oumoul Coulibaly var stigahæst hjá Tindastóli með 26 stig og Randi Brown skoraði 19. Hjá Haukum var Eva Margrét Kristjánsdóttir stigahæst með 26 stig og hún tók tíu fráköst. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 22 stig.

Sutton með svakalega þrennu

Á Akureyri var ekki sama spenna því Þórsarar höfðu þar yfirhöndina allan tímann. Staðan var 33-22 eftir fyrsta leikhluta og sextán stigum munaði í hálfleik, 62-46.

Madison Sutton fór á kostum eins og fyrr í vetur og skoraði 18 stig, tók 24 fráköst og gaf 17 stoðsendingar. Hin franska Amandine Toi var stigahæst með 41 stig.

Hjá Njarðvík var Brittany Dinkins einnig með 41 stig en Bo Guttormsdóttir-Frost kom næst með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×