Enski boltinn

Amorim varar stuðnings­menn United við: Ó­veðrið mun koma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim er oft mjög líflegur á hliðarlínunni hjá Manchester United.
Ruben Amorim er oft mjög líflegur á hliðarlínunni hjá Manchester United. Getty/Robbie Jay Barratt

Ruben Amorim hefur byrjað vel hjá Manchester United en horfir raunhæft á framhaldið. Hann veit að það mun harðna á dalnum og hann vill að stuðningsmenn félagsins geri sér grein fyrir því.

Amorim er taplaus í fyrstu þremur leikjum sínum og liðið vann sinn stærsta deildarsigur frá 2021 með 4-0 sigri á Everton í síðasta leik. Væntingarnar voru því fljótar að aukast mikið.

Næst á dagskrá er leikur á móti Arsenal í kvöld og Amorim hefur greinilega áhyggjur af leiknum. Hann er að breyta mjög miklu og leikmennirnir eru enn að átta sig á nýju leikkerfi.

„Ég vildi segja eitthvað annað hér en ég verða að endurtaka mig: Óveðrið mun koma,“ sagði Ruben Amorim á blaðamannafundi fyrir leik kvöldsins.

„Ég veit ekki hvort þið notið það orðalag en það munu koma erfiðir tímar og lið munu lesa okkur í sumum leikjum. Ég veit það af því að ég þekki mína leikmenn, ég þekki fótbolta og ég fylgist með fótbolta. Við erum á þeim stað að við erum að setja einfalda hluti inn í leik liðsins án þess að æfa,“ sagði Amorim.

„Við þurfum því að einbeita okkur að einum leik í einu, hverri frammistöðu, hvað við þurfum að bæta og reyna að vinna leiki. Þar liggur okkar einbeiting. Ég veit að það virkilega erfitt að vera þjálfari Manchester United og segja svona hluti á blaðamannafundi,“ sagði Amorim.

„Við viljum vinna alla leiki, sama hvað, við munum reyna að vinna en við vitum að við erum á allt öðrum stað ef þú berð okkur saman við Arsenal,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×