Bjór kenndur við svarta dauða verður ekki seldur í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) vegna þess að á bjórflöskunum stendur „Drekkið í friði". Eigandi vörumerkisins hefur kært ákvörðun ÁTVR um að taka bjórinn ekki í sölu til fjármálaráðuneytisins.
Bjórinn Black Death Beer hefur verið framleiddur frá árinu 1989 og seldur víða erlendis, auk þess sem hann hefur verið seldur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sótt var um að koma bjórnum í reynslusölu í ÁTVR seint á síðasta ári, en umsókninni var hafnað.
Ákvörðun ÁTVR um að hafna því að selja bjórinn sem kenndur er við svarta dauða byggir á því að á umbúðum áfengis megi einungis vera skilaboð sem tengist vörunni, gerð hennar eða eiginleikum. Með öðrum orðum má ekki biðja þá sem ætla sér að drekka bjórinn að „drekka í friði" samkvæmt ákvörðun ÁTVR.
Bjórinn er framleiddur af Vífilfelli, en eigandi vörumerkisins er Valgeir T. Sigurðsson. Í bréfi sem lögmaður Valgeirs hefur sent fjármálaráðuneytinu segir að textinn „Drekkið í friði" feli í sér „jákvæð skilaboð og ábendingu um ábyrga neyslu vörunnar". Þar er því mótmælt að textinn geti talist gildishlaðinn eða innihaldi ómálefnalegar upplýsingar.
Í bréfinu er einnig bent á að ósamræmi sé í því sem ÁTVR kjósi að taka í sölu og því sem hafnað hafi verið. Bent er á að á umbúðum bjórsins Bríó standi „Það er gott að vera bríó". Orðið bríó finnst ekki í orðabók, en í bréfinu segir að það sé slangur fyrir að vera hífaður.
brjann@frettabladid.is
Innlent