Innlent

Rútuslys austan við Hala í Suðursveit

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leiðinni á vettvang.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leiðinni á vettvang. Vísir/Vilhelm

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að umferðarslysið hafi orðið á sjöunda tímanum í kvöld á Þjóðvegi 1 austan við Hala í Suðursveit. Þar hafi rúta með um tuttugu manns farið út af veginum.

Enginn er sagður hafa slasast alvarlega og hafa allir farþegar verið fluttir í skjól. Veginum hefur verið lokað meðan unnið er á vettvangi.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leiðinni og áhöfn annarrar þyrlu í viðbragðsstöðu. Slysið átti sér stað einhver staðar á milli Hafnar í Hornafirði og Fagurhólsmýrar.

„Það eru tuttugu manns í rútu sem fór utan vegar. Viðbragðsaðilar eru á leiðinni,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi.

„Viðbragðsaðilar eru að lenda á vettvangi, en veginum hefur verið lokað á meðan staðan er metin. Ekki er vitað um ástand farþega, en verið er að meta það,“ segir í tilkynningu lögreglu þar sem einnig er varað við mikilli hálku á vettvangi.

Á vef Vegagerðarinnar segir að flughált sé austan við Höfn og krapi, hálka eða hálkublettir á flestum öðrum leiðum á Suðausturlandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×