Enski boltinn

Amorim vill ekki að stuðnings­menn United syngi nafnið hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúben Amorim fagnar marki í leik Manchester United og Everton á sunnudaginn. United vann 4-0 sigur.
Rúben Amorim fagnar marki í leik Manchester United og Everton á sunnudaginn. United vann 4-0 sigur. getty/Robbie Jay Barratt

Rúben Amorim er þakklátur fyrir móttökurnar sem hann hefur fengið frá stuðningsmönnum Manchester United en er samt ekki hrifinn af nýjum söng þeirra um hann.

United hefur farið vel af stað undir stjórn Amorims og unnið tvo af þremur leikjum undir hans stjórn og gert eitt jafntefli.

Stuðningsmenn United eru hrifnir af Amorim og hafa byrjað að syngja nafn hans við lagið „Give It Up“ með KC & The Sunshine Band. Amorim finnst samt frekar óþægilegt að heyra sönginn og vill að stuðningsmenn United hætti að syngja hann.

„Ég er ekki hrifinn af söngnum. Ég kann ekki við hann. Mér líður ekki vandræðalega en þar sem ég er stjórinn þurfa þeir að syngja um leikmennina og liðið. Svo þetta er ekki gott fyrir mig,“ sagði Amorim á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Arsenal annað kvöld.

„Ég skil og kann virkilega að meta tenginguna við stuðningsmennina en ég vil að þeir styðji við liðið og leikmennina því þeir eru inni á vellinum en ég fyrir utan hann. Ég er samt upp með mér. Ég finn tenginguna við stuðningsmennina en við vitum að við þurfum góð úrslit til að halda henni.“

United er í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með nítján stig eftir þrettán leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×